Sjálfbærniásinn

Sjálfbærniásinn er nýr samræmdur mælikvarði sem mælir viðhorf íslenskra neytenda til frammistöðu fyrirtækja í sjálfbærnimálum og gerir samanburð á stöðu og þróun á mörkuðum. Prósent, Langbrók og Stjórnvísi standa að Sjálfbærniásnum.

Sjálfbærniásinn

Markmið Sjálfbærniássins er að veita hlutlausar og samanburðarhæfar upplýsingar um viðhorf almennings til þess hvernig íslensk fyrirtæki standa sig í sjálfbærnimálum.

Nánar

Sjálfbærniásinn er nýr samræmdur mælikvarði á viðhorfi þjóðarinnar til sjálfbærnimála íslenskra fyrirtækja. Mælingar ná til helstu markaða á Íslandi og voru framkvæmdar á tímabilinu janúar til og með apríl 2024. Viðurkenningar á hverjum markaði voru veittar miðvikudaginn 4. september 2024 í Opna háskólanum í Háskólanum í Reykjavík.

Hægt er að sjá upptöku frá viðburðinum hér.

Fyrsti Sjálfbærniásinn kynntur
4. september 2024

Niðurstöður

Mælingarnar ná til helstu markaða á Íslandi:
Álframleiðenda, banka, byggingavöruverslana, fjarskiptafyrirtækja,  flugfélaga, flutningafyrirtækja, framleiðslufyrirtækja, matvöruverslana, opinberra fyrirtækja, raforkusala, sjávarútvegs, tryggingafélaga, upplýsingatæknifyrirtækja og fyrirtækja á alþjóðamarkaði.

Nánar

Sjálfbærniupplýsingagjöf

Mikilvægt er að fyrirtæki marki sér stefnu í sjálfbærni með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfi og samfélag. Til að ná árangri er mikilvægt að fylgja eftir alþjóðlegum mælikvörðum í innleiðingu samfélagsábyrgðar og koma þessum sjálfbærniáherslum á framfæri til sinna hagaðila.

Nánar

„Í viðskiptalandslagi samtímans er sjálfbærni fyrirtækja ekki bara tískuorð heldur stefnumótandi nauðsyn. Loftslagsbreytingar eru ekki lengur fjarlæg ógn, afleiðingar þeirra hafa áhrif á flest alla þætti lífs okkar, þar með talið rekstrarumhverfi fyrirtækja. Áhættan er veruleg og þvert á atvinnugreinar. Orðsporsáhætta í tengslum við umhverfis-, og félagsþætti er raunveruleg og í takt við breytt viðhorf neytenda sem stýra í auknum mæli kaupum sínum í átt að ábyrgum og vistvænum vörum og þjónustu . Ljóst er að fyrirtæki sem miðla áhrifum starfseminnar á umhverfi og samfélag á ábyrgan hátt laða ekki aðeins að sér fleiri trygga viðskiptavini heldur njóta aukins trausts starfsfólks og annarra hagaðila.”

Soffia S. Sigurgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Langbrókar

Spurt og svarað

Hvernig eru spurningarnar samdar?
Sjálfbærniásinn samanstendur af sex lykilspurningum sem kanna viðhorf neytenda til samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja, svo sem viðhorfs þeirra til framlags fyrirtækisins til samfélagsins, stjórnarhátta og umgengni við auðlindir.

Hvað er gert við niðurstöðurnar?
Niðurstöðurnar eru birtar í skýrslum sem greina svörin eftir helstu grunnbreytum. Fyrirtæki sem ná tilskildum fjölda svara fá aðgang að niðurstöðum sínum og geta nýtt þær til að bæta sjálfbærnistefnu sína.

Hver er ávinningur fyrirtækja af þátttöku?
Fyrirtæki sem fá afbragðsgóða mælingu í Sjálfbærniásnum fá að nota merki Sjálfbærniássins í markaðsstarfi sínu, sem eykur trúverðugleika þeirra og viðskiptatækifæri.

Hvernig getur neytandi nýtt sér Sjálfbærniásinn?
Neytendur geta nýtt sér Sjálfbærniásinn til að taka upplýstar ákvarðanir um hvaða fyrirtæki þeir kjósa að styðja. Ásinn veitir innsýn í hvernig viðhorf neytenda er til frammistöðu fyrirtækja í sjálfbærnimálum, sem getur haft áhrif á kauphegðun.

Er möguleiki á að spurningar verði aðlagaðar að sérstökum þörfum fyrirtækja?
Nei, til að tryggja samræmi og samanburðarhæfni eru allar spurningar staðlaðar og óbreyttar milli fyrirtækja og markaða.

Hvað þýðir það ef fyrirtæki á ákveðnum markaði er ekki með, eða nær ekki tilskyldum fjölda svara?
Þumalputtareglan er að fyrirtæki þurfi að vera með 20% markaðshlutdeild eða að lágmarki 30% þjóðarinnar treysti sér að svara spurningum um fyrirtækið. Ef fyrirtæki á ákveðnum markaði nær ekki tilskildum fjölda svara verða niðurstöður þess ekki unnar né birtar.

Hvernig er tryggt að niðurstöður endurspegli raunverulegt álit neytenda?
Könnunin er send á 20.000 manna könnunarhóp Prósents þar sem þátttakendur hafa verið valdir tilviljanakennt í hópinn. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu svo hægt sé að alhæfa að niðurstöður endurspegli viðhorf þjóðarinnar með 95% vissu.

Hvernig getur fyrirtæki tekið þátt?
Fyrirtæki geta ekki keypt sig inn í mælingar fyrirfram. Ákveðnir markaðir eru mældir árlega og ekki hægt að óska sérstaklega eftir því að vera með í viðurkenningu. Hins vegar er hægt að gera sér mælingar fyrir þau fyrirtæki sem óska eftir því þá er miðað við að 25% þjóðarinnar þekki vörumerkið sem um er spurt.

Hver á kost á að fá aðgang að niðurstöðum Sjálfbærniássins?
Allir geta keypt niðurstöður pr. markað. Hafa samband
Hver er tilgangur Sjálfbærniássins?
Sjálfbærniásinn hefur það að markmiði að hvetja fyrirtæki til að leggja meiri áherslu á sjálfbærni, sem getur leitt til betri ímyndar, minni orðsporsáhættu og aukins trausts meðal neytenda, sem styrkir íslensk viðskipti til lengri tíma.

Hver er munurinn á Sjálfbærniásnum og öðrum mælikvörðum eins og Íslensku ánægjuvoginni?
Sjálfbærniásinn einblínir sérstaklega á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, á meðan Íslenska ánægjuvogin mælir almenna ánægju viðskiptavina með vörur og þjónustu fyrirtækja.

Hvernig er trúnaðinum við þátttakendur í könnuninni háttað?
Prósent starfar eftir ströngum siðareglum ESOMAR sem settar eru af alþjóðasamtökum markaðsrannsóknarfyrirtækja. Prósent lætur aldrei af hendi persónugreinanlegar upplýsingar þátttakenda. Allar niðurstöður kannana eru settar fram með þeim hætti að tiltekin svör verða aldrei rakin til einstakra svarenda. Komi persónugreinanlegar upplýsingar fram við gagnaöflun eru þær jafnframt skildar frá gögnum að könnun lokinni.

Hvernig geta fyrirtæki bætt stöðu sína í Sjálfbærniásnum?
Fyrirtæki geta bætt stöðu sína með því að auka sjálfbærni í starfsemi sinni, miðla betur því sem vel er gert og tryggja að neytendur séu meðvitaðir um þau skref sem eru stigin í átt að aukinni samfélagslegri ábyrgð.