Sjálfbærniásinn

Rannsóknarfyrirtækið Prósent, ráðgjafafyrirtækið Langbrók og stjórnendafélagið Stjórnvísi hafa unnið að þróun Sjálfbærniássins sem mælir viðhorf neytenda til sjálfbærni, samfélagsábyrgðar og stjórnarhátta fyrirtækja á Íslandi.

Sambærilegar mælingar eru nú þegar gerðar víða erlendis.

Markmið

  • Að framkvæma hlutlausar og samræmdar viðhorfsmælingar á helstu mörkuðum og stærstu vörumerkjum Íslands til að hægt sé að bera saman stöðu og þróun.

  • Að hvetja íslensk fyrirtæki og stofnanir til að leggja enn meiri áherslu á sjálfbærni og miðla upplýsingum um verk sín.

  • Að auka vitund neytenda um mikilvægi sjálfbærni og hvernig þeir geta haft áhrif með kauphegðun sinni.

  • Að vera íslenskum fyrirtækjum hvatning til að leggja enn frekari áherslu á þessi mál.

Framkvæmd og þátttakendur

Rannsóknin er framkvæmd af rannsóknarfyrirtækinu Prósenti. Framkvæmdatími var frá janúar til ágúst 2024 og var um að ræða netkannanir sem voru sendar á handahófskennt úrtak úr könnunarhópi Prósents sem inniheldur 15.000 Íslendinga, 18 ára og eldri. 

Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu svo hægt sé að alhæfa að niðurstöður endurspegli viðhorf þjóðarinnar með 95% vissu.

Um rannsóknarmódelið

Notast er við rannsóknarmódel Qualtrics til að mæla sjálfbærni, The Qualtrics ESG solution. Markmiðið með því var að búa til staðla svo að leiðtogar geti safnað sjónarmiðum allra hagsmunaaðila til að taka gagnadrifnar ákvarðanir um hvernig eigi að ná fram umhverfislegum (e. environmental), félagslegum (e.social) og stjórnunarlegum (e.governence) markmiðum."

Módelið mælir þá 4 þætti sem The World Economic Forum telja að muni leiða heiminn á sjálfbærari stað. Þessir fjórir þættir eru Jörðin (e.planet), velsæld (e.prosperity), fólk (e.people) og stjórnarhættir (e.governance):

Jörðin: Viðskiptavinir hafa í auknum mæli áhuga á að versla við fyrirtæki sem hafa skuldbundið sig til að starfa með umhverfisvænum hætti. Það þarf að ákvarða hvort að viðskiptavinir séu meðvitaðir um þær aðgerðir sem fyrirtækið fer í til að draga úr umhverfisáhrifum og hvort fyrirtækið leitist við að lágmarka sóun við framleiðslu og afhendingu afurða sinna.

Velsæld: Fyrirtæki verða að styðja við samfélögin þar sem þau starfa.  Þegar samfélag þrífst, þá þrífast einnig stofnanir innan þess. Að vera samfélagslega ábyrgt fyrirtæki felur í sér að hvetja til frumkvöðlastarfs og að bæta efnahag þess samfélags sem það starfar í. Það er einnig mjög mikilvægt að upplýsa viðskiptavini um þau samfélagslegu verkefni sem fyrirtækið styður með virkum hætti.

Fólk: Til að teljast vera sjálfbært fyrirtæki þurfa viðskiptavinir að trúa því að þeir fái sanngjarna meðferð, að þeir eru öruggir þegar þeir eiga í samskiptum við fyrirtækið og að ákvörðun stjórnenda séu góðar fyrir þeirra hagsmuni.

Stjórnarhættir: Stjórnendur verða að taka ábyrgð á því að innleiða langtíma áætlun til að ná markmiðum sínum í sjálfbærni. Viðskiptavinir þurfa að skilja markmið fyrirtækisins, treysta að fyrirtækið starfi að heilindum, og að vara og þjónusta fyrirtækisins bæti líf þeirra.

Spurningarnar

Spurningarnar í rannsóknarmódelinu voru ákvarðar út frá því að rýna 450 spurningar og milljónir gagnapunkta til að finna hvaða spurningar væru bestar til að mæla sjálfbærni. Þegar búið var að fækka spurningunum talsvert niður var gerð staðfestingarrannókn, byggð á 26 þúsund svörum í 26 löndum. Heildarmódelið er 17 spurningar skipt upp í 5 flokka. Til einföldunar hefur módelið sem hér er notað verið stytt í 5 spurningar.  Það inniheldur eina lykilspurningu auk einnar spurningar úr hverjum flokki.  Auk þess er spurt um áhrif við val á fyrirtæki (fyrirtæki á einstaklingsmarkaði) eða viðhorfi gagnvart fyrirtæki (fyrirtæki ekki á einstaklingsmarkaði) að það leggi áherslu á sjálfbærni.

„Við hjá Stjórnvísi göngum til þátttöku í þessu frumkvöðlaverkefni okkar góðu samstarfsaðila með mikilli tilhlökkun. Við höfum  mikla trú á að Sjálfbærniásinn skapi sér sess sem mikilvæg viðurkenning til þeirra vinnustaða í atvinnulífinu sem leggja áherslu á sjálfbærni og virkt framlag í baráttunni gegn loftslagsvánni.“

Gunnhildur Arnardóttir,
framkvæmdastjóri Stjórnvísi