Sjálfbærni-upplýsingagjöf

Mikilvægt er að fyrirtæki marki sér stefnu í sjálfbærni með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfi og samfélag. Til að ná árangri er mikilvægt að fylgja eftir alþjóðlegum mælikvörðum í innleiðingu samfélagsábyrgðar og koma þessum sjálfbærniáherslum á framfæri til sinna hagaðila.

Rannsóknir sýna að atvinnustarfsemi sem byggir á sjálfbærni er arðbærari til lengri tíma litið, enn fremur hefur það jákvæð áhrif á samkeppnishæfni, nýsköpun, vinnumenningu, ánægju starfsmanna, orðspor, arðsemi og álit hagaðila. Snertifletir reksturs fyrirtækja við umhverfi og samfélag eru margir. Leiðarvísar og alþjóðlegir sjálfbærnimælikvarðar einfalda fyrirtækjum að kortleggja þessa snertifleti og setja sér mælanleg markmið byggt á aðgerðum sem eru innleiddar markvisst í starfsemina. Á þessari vegferð þurfa fyrirtæki að fara í gegnum naflaskoðun og innleiða vissar breytingar til að ná settum markmiðum. Sjálfbærniáherslur í starfsemi fyrirtækja gefa þeim tækifæri að efla ásýnd sína á markaði. Liður í því er að auka gegnsæi og upplýsingagjöf til að koma aðgerðum og skilaboðum á framfæri. Til lengri tíma litið eykur það traust og hefur jákvæð áhrif á ímynd fyrirtækja. 

Upplýsingagjöf og samskipti fyrirtækja við hagaðila skipta sköpum til að koma á framfæri stefnu, áherslum og markmiðum fyrirtækis. Fyrir hvað stendur fyrirtækið og hvaða skilaboð þurfa að berast markaðnum, viðskiptavinum, hagsmunaaðilum og almenningi. Skýr upplýsingastefna sem tekur bæði á ytri og innri samskiptum fyrirtækis tryggir betur árangur á sviði sjálfbærni og jákvæða uppbyggingu ímyndar.

CSRD - Evrópsk tilskipun um upplýsingagjöf um sjálfbærni í starfsemi fyrirtækja

CSRD (e. Corporate Sustainability Reporting Directive) tilskipun Evrópusambandsins (ESB) 2022/2464 um upplýsingagjöf um sjálfbærni í starfsemi fyrirtækja skyldar stærri félög til að greina og kortleggja áhrif starfseminnar á umhverfi, samfélag og efnahag. Með tilskipuninni fylgir nýr sjálfbærnistaðall, ESRS (e. European Sustainability Reporting Standards). Aukin upplýsingagjöf kallar á vinnu innan fyrirtækja sem felst í því að kortleggja og mæla áhrif starfseminnar á víðtækan hátt þ.m.t. virðiskeðjuna. Flest stór félög á Íslandi hafa birt árs- og sjálfbærniskýrslur undanfarin ár byggt á alþjóðlegum stöðlum sem eru ekki lagalega bindandi, líkt og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, Global Reporting Initiative (GRI), ESG eða UFS leiðbeiningum Nasdaq. Þau eru sannarlega búin að undirbúa vel farveginn að þessum breytingum sem fylgja nýrri tilskipun ESB. Samræmd upplýsingagjöf mun draga úr grænþvotti og aukið gagnsæi mun gera það að verkum að aukið gagnsæi mun gegna stóru hlutverki í umbreytingu hagkerfisins í átt að sjálfbærni þar sem mestu máli skiptir hvert og hvernig fjármagni er beint.